Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Neytendaandóf

Umræðan í þjóðfélaginu um hátt verð á vöru og þjónustu hefur verið mikil undanfarin ár.  Olíuverð, hátt matarverð, vaxtarmunur bankanna, lyfjaverð og fleira í þeim dúr er mikið til umfjöllunar.  Oftar en ekki er ástæðan sögð vera fákeppni, álögur hins opinbera eða gróðafíkn stórra fyrirtækja.  T.d. í umræðunni um hátt matarverð er því oft borið við að megin ástæðan séu háir tollar, flutningskostnaður og skortur á stærðarhagkvæmni við innkaup.   Bankarnir telja kjörin sem þeir veita viðskiptavinum sínum hér á landi vel sambærileg við kjör þau sem þekkjast erlendis.  Einnig verja þeir ofurhagnað sinn með því að segja að meginhluti hagnaðarins sé vegna starfssemi erlendis.   Hvað verð á olíu og áfengi snertir er yfirleitt ástæðan sögð vera há gjöld frá hinu opinbera.  

Þó svo að svo að það megi skýra hátt verð með þessum rökum eða ástæðum þá tel ég ónefnda eina stóra ástæðu þess að neytendur láta þetta yfir sig ganga án teljandi mótspyrnu.  Það er alger skortur á andófi neytenda.  Við Íslendingar erum afar sérstakir að þessu leyti, við virðumst alltaf láta flest yfir okkur ganga og tökum þegjandi hljóðalítið upp veskið og borgum uppsett verð.  Sama á við um stór mál sem koma upp í fjölmiðlum.  Þau eru í mikilli umræðu í örfáa daga án niðurstöðu og síðan gleymast þau í hugum fólks.  

Hverju ætli sé um að kenna.  Ætli að við séum svo vön því að geta ekkert að gert og teljum rödd eins ekki geta hreyft við málum.  Erum við búin að vera svo lengi í skottinu í umræðunni að við erum löngu hætt að nenna að spá í þetta.   Ætli að það sé búið að telja okkur trú um að þær ástæður sem taldar voru upp hér fyrir ofan séu góðar og gildar ástæður.   Ég er allavega algerlega ósammála því.  Þorvaldur Gylfason hittir algerlega naglann á höfuðið þegar hann segir neytendur í aftursætinu í þessum málum og þ.a.l. ekki með neina stjórn á því hvernig kjör þeir fá.  Neytendaandóf er svarið...miklu sterkari neytendaumræða þarf að eiga sér stað.  Neytendasamtökin þurfa að vera miklu herskárri í starfi sínu.  Talsmaður neytenda á að breytast í andófsmann neytenda.  Það myndi vekja fjölmiðlanna og kveikja upp í umræðunni.  Það má efast um hlutleysi fjölmiðlanna þar sem stór hluti þeirra er í eign manna sem myndu síst af öllu koma af stað kröftugri umræðu um neytendamál.  

   Af hverju hafa ekki fyrir löngu sprottið upp vefsíður þar sem beinlínis er verið að segja fólki hvar á ekki að versla sökum okurs.  Þar væri hægt að birta top 10 lista yfir dýrustu verslanirnar í hverjum geira fyrir sig og síðan fjalla um einstaka níðingsverk hinna ýmsu fyrirtækja.   Af hverju myndast ekki svolítið reið og fanatísk umræða þar sem gengið er einfaldlega frá fyrirtækjum sem dirfast að okra á okkur með ósvífnum hætti.  Af hverju eru fjölmiðlar ekki stöku sinnum með greiningu á því hvernig verð einstaka vöruflokka er og hver álagningin í raun er.  Af hverju ert ekki fjallað um eignarhald fyrirtækja í virðiskeðju hvers geira fyrir sig og þannig í raun rýnt í hverjir það eru sem eru að fá framlegðina í vasann.  Af hverju hefur ekki verið umfjöllun í Kompás um raunveruleg hneyksli og flett ofan af því hvernig álagning á smásölumarkaði getur verið svo svínsleg að það er hreint út sagt ótrúlegt. Einnig mætti fjalla um hvernig bankarnir eru raunverulega í verðsamráði eða allavega sammála um að vera ekki samkeppni í ákveðnum þjónustuliðum.  Er t.d. einhver að ennþá að athuga hvort lækkun virðisaukaskatts á matvöru hafi í raun skilað sér niður til neytenda.  Ég tel að smásalarnir hafi stungið þeirri lækkun að mestu í vasan sjálfir sem er gremjulegt...sérstaklega af því að þeir virðast komast upp með það án þess að mikil mótmæli eigi sér stað.  Maður heyrir út í horni "Ég vissi alltaf að þetta myndi gerast, hvað getum við svo sem gert".Getur t.d. einhver sagt mér hvernig maður kemst í gegnum daginn án þess að Baugur seilist ofan í vasana mína. :)  Það væri gaman að komast að því.

En nóg komið af pirringi hérna megin.  Ég held að við ættum að taka Frakka okkur til fyrirmyndar...því þeir hefja alltaf Bastillubyltingu um leið og þeim finnst að sér vegið.   Hættum nú að vera svona passív og verum svolítið góð með okkur.  Förum í framsætið og hefjum Neytendaandóf.

   


Ég gleymdi einu smáatriði....

...þegar ég fékk þá hugmynd að byrja að blogga.  Maður þarf að hafa tíma í að skrifa.  Ég á eftir að koma einhverju systemi á það.  Ég satt að segja skil ekki hvernig sumir ofurbloggarar hérna hafa tíma í að skrifa og sýsla með blogg síðurnar sínar.  Eiga þeir ekkert líf.... sumir hverjir hljóta að verja allt að tveimur klukkustundum í skrif og uppfærslur á bloggsíðum sínum.

Allavega þá ætla ég að reyna að gera betur.  Ég hafði t.d. voðalega miklar og heitar skoðanir hér um daginn þegar byltingin í borginni átti sér stað.  Núna brenna önnur mál á mér eins og neytendamál og áfengisfrumvarpið.  Nú svo má allveg tjá sig um dægurmál, eins og fótbolta, tónlist og kvikmyndir ef ég tel það þess vert að blaðra um það hér á blogginu.   Sú staðreynd að ég er giftur og með þrjár litlar prímadonnur á heimilinu gæti orðið tilefni til skemmtilegra skrifa. :)

Hermann og wikipedia uppfletting vikunnar er meðal uppfyllingar færslna sem gætu dúkkað uppi hér ef ég er massa latur við skriftir.        

   


Hermann Dagsins

herman2036666071016

 

Eg ætla að hressa upp á stemminguna hérna með vel völdum hermann bröndurum enda getur hann verið hrikalega fyndinn.  


Hver er ég.....smá profiling herna handa ykkur.

Er það ekki viðeigandi að maður kynni sig.  Það væri nú voðalega gaman að upphefja sjálfan sig svolítið hérna eða fá jafnvel gestapenna til að kynna sig til leiks.   En látum smá lýsingu frá mér duga.  

ÉG er 35 ára gamall strákur sem heldur ennþá að hann sé 25 ára.   Fáránlegt hvað tíminn líður.  ÉG vona samt að ég sé ekki álitinn vanþroska hehe en ég einn af þeim sem finnst hann vera innan um eintóma gamlingja þegar ég umgengst jafnaldrana.  Meeeen....þegar ég fór á reunion hjá árgangnum mínum í MS hehe. Það var svakalegt.   Þá vitið þið það ég var í MS, útskrifaðist á Rave árinu mikla 1992.  Reyndar sama ár og Rave tjaldið var skorið niður á Eldborg um Verslunarmannahelgina.  Þvílík vanhelgun man ég hehe.

Uppalinn Árbæingur, er í sama árgangi og gullaldarlið Fylkis þar sem menn eins og Þórhallur Dan, Kiddi Tomm, Finnur Kolbeins, Gunnar Þór Péturs fóru á kostum.  Í því árgengi voru líka menn sem náðu minni árangri á knattspyrnuvellinum en skunduðu á vígvöll stjórnmálanna.  Í dag þegar maður fréttir af því að Dagur B Eggertsson sé orðinn borgastjóri minnist maður þess tíma þegar ég sat við hliðina á honum í sama bekk í Árbæjarskóla.  Hann af vinstri sinnuðum ættum og ég með blátt blóð í æðum og átti pabba sem vann út á Velli.   Það var efni margra rökræðna og skemmtilegra uppákoma...sem ég get nú einni færslu í síðar hér.  Ég get til dæmis sagt ykkur frá leiksigri okkar félaga þegar við lékum aðalhlutverkin í "Diðrik og Júlíu", magnaðri uppfærslu á þessu ódauðlega lagi Ladda og Halla.

hmmm hvað fleira.... Austurbæingur, árbæingur, gallarður Fylkismaður, Ms-ingur.   Já... ég fór síðan strax eftir MS beint í Háskóla Íslands.  20 ára gamall tók ég strætó niður í bæ og hugðist skrá mig í sagnfræði.  Hehe sú strætóferð var örlagarík....ég einhvern veginn komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki mjög praktískt að fara í sagnfræðina heldur væri betra að hafa hana að áhugamáli.  Ég endaði í Viðskiptafræðinni.  Kláraði hana á fimm árum og á meðan var ég duglegur að sinna félagslífi.  Lét plata mig í að verða formaður Mágusar, félags viðskiptafræðinema, í eitt ár og síðan var ég eitthvað viðloðandi háskólapólítikina.  Vaka var auðvitað eina vitið.....

Á menntaskólaárunum byrjaði ég að fikta við að koma fram í útvarpi.  Ég náði að sameina ástríðu mína á tónlist og athyglisþörf á framhaldsskóla stöðinni Útrás sem þá var og hét.  Ég stýrði stöðinni meirað segja á árunum 1991 til 1992.  Eftir útskrift þá um vorið tókum við nokkrir félagarnir okkur til og leigðum Útrás um sumarið.  Frábær tími....hehe margir af útvarpsmönnum framtíðarinnr stigu sín fyrstu spor þarna.  Stöðin var meiraðsegja smá "sumar hittari".    Þetta útvarpsbrambolt mitt varð til þess að í dag er ég ennþá að stjórna sama útvarpsþættinum.  Party Zone, dansþáttur þjóðarinnar er víst orðinn elsti útvarpsþáttur landsins.  hehehe samt gefum við okkur út fyrir að vera mega trendý og flottir tónlistarlega.  Þannig að við erum ekkert að flagga þvi hvað við erum orðnir gamlir. 

Í dag er ég giftur, 3 barna faðir og bý í laugardalnum.  Ég er meirað segja kominn með hund líka.   Það vantar bara að ég kaupi Space Shuttle bíl og flytji í úthverfin á ný..... þá er ég orðinn þessi vísitölu millistéttar úthverfa eitthvað...hehe.   Ég tók reyndar ekki við "heildsölunni hans pabba", kannski vegna þess að hann átti enga. :)   Ég bý í Latabæ þar sem ég vinn.  Áður var ég eitthvað viðloðandi kvikmyndaframleiðslufyrirtæki þannig að sú reynsla ásamt menntun gáfu mér tækifæri að vinna með Íþróttaálfinum og hans fólki. ;) Hresst og heilbrigt.    

Hér á blogginu ætla ég bara fá útrás fyrir skoðanir og koma á framfæri einhverju skemmtilegu hér í blogg heimum.   Ég lofa því að ég verð aldrei eins og einhver bitur flíspeysumamma á barnalandi  en gæti þó missti mig í smá pólítískum skætingi.  Þetta gæti líka orðið tónlistarblogg...hvernig lýst ykkur á það.  ´:)

 

Takk.  Réttið upp hönd sem lásu þetta. :)  

Bless í bili..... hmb  

            


Ég er kominn í Bloggheima. Þrátt fyrir allt.

Hehe...mér hefur alltaf fundist bloggheimur verið hálf kjánalegur pakki.  Fólk að skrifa pistla í einhverri sjálfumgleði og vissu um að aðrir netverjar hafi einhvern minnsta áhuga á því sem þau eru að skrifa.  Já eða að þeir fari yfirhöfuð einhvern tíma inná bloggið hjá viðkomandi.   Ég hef verið að fylgjast með úr fjarlægð og viti menn.  Þegar mbl.is fór að birta á forsíðu sinni random færslur hjá fólki fór ég að standa sjálfan mig að því að smella á áhugaverða færslur.  Ég meirað segja var farinn að setja inn "comment" og kominn með nokkra uppáhalds bloggara sem ég vandi mig á að fylgjast með.  

Well,  if you can´t beat them, join them sagði skáldið og hér er ég.   Ég  hugsa þetta blogg nú aðallega fyrir mig, hér get ég æft mig í að koma hugsunum mínum eða skoðunum "á blað".  Það brennir nú alltaf eitthvað á manni úr þjóðfélagsumræðunni og auðvitað eru áhugamálin eitthvað sem maður er tilbúinn að gaspra eitthvað um.   Þó svo það kítli aðeins að það sé möguleiki á að einhver skoði þetta og komi kannski með athugasemdir þá er ég nú ekki að gera ráð fyrir því að fólk bíði í röðum eftir því að sjá viskuna og snilldina leka af þessari bloggsíðu.   Gaman að þessu....kannski fær maður smá útrás hérna.          

   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband