Neytendaandóf

Umræðan í þjóðfélaginu um hátt verð á vöru og þjónustu hefur verið mikil undanfarin ár.  Olíuverð, hátt matarverð, vaxtarmunur bankanna, lyfjaverð og fleira í þeim dúr er mikið til umfjöllunar.  Oftar en ekki er ástæðan sögð vera fákeppni, álögur hins opinbera eða gróðafíkn stórra fyrirtækja.  T.d. í umræðunni um hátt matarverð er því oft borið við að megin ástæðan séu háir tollar, flutningskostnaður og skortur á stærðarhagkvæmni við innkaup.   Bankarnir telja kjörin sem þeir veita viðskiptavinum sínum hér á landi vel sambærileg við kjör þau sem þekkjast erlendis.  Einnig verja þeir ofurhagnað sinn með því að segja að meginhluti hagnaðarins sé vegna starfssemi erlendis.   Hvað verð á olíu og áfengi snertir er yfirleitt ástæðan sögð vera há gjöld frá hinu opinbera.  

Þó svo að svo að það megi skýra hátt verð með þessum rökum eða ástæðum þá tel ég ónefnda eina stóra ástæðu þess að neytendur láta þetta yfir sig ganga án teljandi mótspyrnu.  Það er alger skortur á andófi neytenda.  Við Íslendingar erum afar sérstakir að þessu leyti, við virðumst alltaf láta flest yfir okkur ganga og tökum þegjandi hljóðalítið upp veskið og borgum uppsett verð.  Sama á við um stór mál sem koma upp í fjölmiðlum.  Þau eru í mikilli umræðu í örfáa daga án niðurstöðu og síðan gleymast þau í hugum fólks.  

Hverju ætli sé um að kenna.  Ætli að við séum svo vön því að geta ekkert að gert og teljum rödd eins ekki geta hreyft við málum.  Erum við búin að vera svo lengi í skottinu í umræðunni að við erum löngu hætt að nenna að spá í þetta.   Ætli að það sé búið að telja okkur trú um að þær ástæður sem taldar voru upp hér fyrir ofan séu góðar og gildar ástæður.   Ég er allavega algerlega ósammála því.  Þorvaldur Gylfason hittir algerlega naglann á höfuðið þegar hann segir neytendur í aftursætinu í þessum málum og þ.a.l. ekki með neina stjórn á því hvernig kjör þeir fá.  Neytendaandóf er svarið...miklu sterkari neytendaumræða þarf að eiga sér stað.  Neytendasamtökin þurfa að vera miklu herskárri í starfi sínu.  Talsmaður neytenda á að breytast í andófsmann neytenda.  Það myndi vekja fjölmiðlanna og kveikja upp í umræðunni.  Það má efast um hlutleysi fjölmiðlanna þar sem stór hluti þeirra er í eign manna sem myndu síst af öllu koma af stað kröftugri umræðu um neytendamál.  

   Af hverju hafa ekki fyrir löngu sprottið upp vefsíður þar sem beinlínis er verið að segja fólki hvar á ekki að versla sökum okurs.  Þar væri hægt að birta top 10 lista yfir dýrustu verslanirnar í hverjum geira fyrir sig og síðan fjalla um einstaka níðingsverk hinna ýmsu fyrirtækja.   Af hverju myndast ekki svolítið reið og fanatísk umræða þar sem gengið er einfaldlega frá fyrirtækjum sem dirfast að okra á okkur með ósvífnum hætti.  Af hverju eru fjölmiðlar ekki stöku sinnum með greiningu á því hvernig verð einstaka vöruflokka er og hver álagningin í raun er.  Af hverju ert ekki fjallað um eignarhald fyrirtækja í virðiskeðju hvers geira fyrir sig og þannig í raun rýnt í hverjir það eru sem eru að fá framlegðina í vasann.  Af hverju hefur ekki verið umfjöllun í Kompás um raunveruleg hneyksli og flett ofan af því hvernig álagning á smásölumarkaði getur verið svo svínsleg að það er hreint út sagt ótrúlegt. Einnig mætti fjalla um hvernig bankarnir eru raunverulega í verðsamráði eða allavega sammála um að vera ekki samkeppni í ákveðnum þjónustuliðum.  Er t.d. einhver að ennþá að athuga hvort lækkun virðisaukaskatts á matvöru hafi í raun skilað sér niður til neytenda.  Ég tel að smásalarnir hafi stungið þeirri lækkun að mestu í vasan sjálfir sem er gremjulegt...sérstaklega af því að þeir virðast komast upp með það án þess að mikil mótmæli eigi sér stað.  Maður heyrir út í horni "Ég vissi alltaf að þetta myndi gerast, hvað getum við svo sem gert".Getur t.d. einhver sagt mér hvernig maður kemst í gegnum daginn án þess að Baugur seilist ofan í vasana mína. :)  Það væri gaman að komast að því.

En nóg komið af pirringi hérna megin.  Ég held að við ættum að taka Frakka okkur til fyrirmyndar...því þeir hefja alltaf Bastillubyltingu um leið og þeim finnst að sér vegið.   Hættum nú að vera svona passív og verum svolítið góð með okkur.  Förum í framsætið og hefjum Neytendaandóf.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband